Kaflinn er um samskifti Sveins og Tryggva.

Veikindi setja strik í reikninginn.

Árið eftir, 1983, vorum við á fullu að ljúka við að byggja nýtt verkstæðið Benna og Svenna ehf. Þann vetur fékk ég svo heiftarlega í bakið að ég gat varla unnið og varð að vera á vöðvaslakandi lyfjum. Það var mikið að gera hjá okkur, bæði að keyra áætlun, byggja húsið, flytja í það og svo var ég eitthvað í frystingu og svona. Og þetta endaði með því að ég lagðist alveg í rúmið og gat ekki einu sinni sest upp. Þá hringdi ég í kírópraktor, Tryggva Jónasson, og pantaði hjá honum tíma. Ég hringdi líka í Arngrím vin minn, röntgentækni á Borgarspítalanum. Tryggvi gaf mér tíma á ákveðnum degi og Arngrímur sagði mér að drífa mig suður, hann skyldi smygla mér inn í biðlistanná spítalanum og þá kæmist ég í aðgerð. Ég fór suður í sjúkrakörfu í flugvélinni því ég gat ekki með nokkru móti setið. Það var bara eins og ég væri lamaður. Ég hringdi svo í spítalann og sagði söguna sem Arngrímur hafði lagt mér í munn, ég hefði dottið á skíðum. Ég var sóttur á sjúkrabíl, lagður inn og sendur í myndatöku. Þá kemur í ljós stór gúll sem hefur gengið út í einn rótarvasann út úr hryggjarlið og lamað neðri hlutann af líkamanum. Ég þóttist nú svo sem vita þetta fyrir eftir lýsingum annars, sem hafði líka fengið slæmt brjósklos, en vildi vera viss. Það var talið réttast að skera mig hið fyrsta og læknar á stofugangi sögðu allt klárt fyrir aðgerð næsta dag. Mamma  kom í heimsókn til mín á spítalann ég sagði henni að ég vildi ekki fara í uppskurð, það gæti kostað margra vikna aðgerðarleysi. Hún bauðst til að borga far fyrir okkur hjónin suður í sólarlönd á meðan ég væri að jafna mig en ég sagði henni að ég ætlaði að sofa nóttina á þessu. Morguninn eftir tókst mér að staulast fram á gang og hringja í Tryggva en ég átti pantaðan tíma hjá honun þennan dag. Ég sagði honum hvernig komið væri fyrir mér, spurði hann hvort hann gæti lagað þetta og bað hann að svara mér alveg hreinskilnislega. Hann sagði að ef hann fengi slík tilfelli í hendurnar innan tveggja vikna eftir að brjóskið hlypi út gæti hann hjálpað fólki í 90% tilvika. Hann sagði mér líka að ég væri í höndum færustu lækna landsins á þessu sviði en ef ég færi í aðgerð gæti hann ekki hjálpað mér eftir það.

Þarna voru liðnir tólf dagar frá því að ég lagðist alveg í rúmið og ég ákvað, meðan á samtalinu stóð, að ég ætlaði að leita til Tryggva en sleppa uppskurði. Þegar læknarnir mættu á stofugang sögðu þeir mér að ég ætti að fara í uppskurð klukkan ellefu og það sé búið að gera allt klárt. Ég sagðist ekki vera tilbúinn í það en þá verða þeir dálítið styggir. Annar þeirra spurði hvort ég gerði mér grein fyrir því að það væri löng bið eftir þessum aðgerðum og ef ég sleppti þessu tækifæri gæti ég þurft að bíða lengi næst. Það væri allt tilbúið fyrir aðgerðina og ég væri að gera mistök.  Ég sagðist gera mér grein fyrir öllu þessu en ég væri búinn að taka lokaákvörðun. Þeir fóru svo í hálfgerðu fússi og ég útskrifaði mig eiginlega sjálfur. Næstu tvær vikurnar gekk ég reglulega til Tryggva og hafði aðsetur hjá Arngrími og Önnu, konu hans. Arngrímur sagði mér að hann hefði gert grín að starfsfélögum sínum á spítalanum í margar vikur fyrir að missa af sjúklingi fyrir klaufaskap, þeir hefðu bara farið vitlaust að mér.

Meðan ég gekk til Tryggva var ég líka í reglulegri líkamsþjálfun eftir hans uppskrift en ég var ekki upp á marga fiska til að byrja með. Hann tók mig inn annan hvern dag og sagði mér svo að rölta eins og ég gæti og hreyfa mig en ekki gera meira en ég réði við, vera í sundi og synda skriðsund eða baksund. Ég fór reglulega í  sund og fyrst komst ég varla yfir laugina. Svo hélt ég að ég kæmist ekki upp úr henni og eftir að það tókst lá ég inni í klefa í að minnsta kosti hálftíma til að ná upp þrótti. Og svona gekk þetta næstu daga, ég reyndi að rölta um nágrennið og fara í sund á milli þess sem ég fór til Tryggva. Mér fannst þetta ganga ansi hægt og gat ekki merkt að neitt gerðist fyrstu vikuna. Þá fór Tryggvi að bæta við í  símu prógrammi og í eitt skiptið heyrðist ægilegur smellur þegar hann var að toga í fótinn á mér. Þá hélt ég að þetta væri búið, líklega hefði hryggurinn slitnað, en þegar ég stóð upp fann ég ekki fyrir neinu.

Eftir þessar tvær vikur fór ég svo heim og reyndi þar að ganga eins og ég gat. Ég var reyndar ekki nærri búinn að jafna mig en var vel rólfær og gekk gjarnan inn á verkstæði eftir móunum ofan við byggðina á Eskifirði. Tryggvi var búinn að segja mér að það væri albest að ganga í þúfum, það væri góð alhliða hreyfing fyrir hrygginn og þúfurnar hafði ég þarna

Ég fékk auðsótt leyfi hjá Sveini Sigurbjarnarsyni að birta þessi drög úr kafla í ævisögu hans, kafla úr bókinni „það reddast“. Sveinn segir svo eftirminnilega frá samskiptum okkar Sveins í kafla bókarinnar, kafla sem heitir: “Veikindi setja strik í reikninginn”.